Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik stígur á stóra sviðið í kvöld í fyrsta skipti þegar liðið mætir Króatíu í lokakeppni EM. Leikið er í NRGi-höllinni í Árósum en þar mun Ísland leika alla þrjá leiki sína í riðlakeppninni.
Liðið verður þar með þriðja íslenska A-landsliðið til þess að taka þátt í lokakeppni stórmóts ásamt karlalandsliðinu í handknattleik og kvennalandsliðinu í knattspyrnu.
Júlíus var nokkuð brattur þegar Morgunblaðið tók hann tali að æfingu lokinni í gær. „Undirbúningurinn gengur bærilega. Maður hefur alltaf eitthvað á hornum sér sem þjálfari en heilt yfir þá gengur vel. Við komumst klakklaust á leiðarenda sem er meira en margir aðrir en það hefur verið mikið vesen með samgöngur hérna í Danmörku og víðar eins og við vitum.
Það setti skipulag okkar aðeins út af sporinu að Spánverjar skyldu ekki komast til Danmerkur og því varð ekkert af æfingaleiknum gegn þeim sem fyrirhugaður var. Við tökum hins vegar bara því sem að höndum ber og settum upp tveggja tíma æfingu í staðinn þar sem var mikið spil,“ sagði Júlíus við Morgunblaðið.