„Mér líður eins og fyrirsætu“

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir stóð í ströngu á línunni í leikjunum …
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir stóð í ströngu á línunni í leikjunum á EM. mbl.is/Hilmar Þór

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir stóð sig afar vel með íslenska landsliðinu á EM í handknattleik. Ísland tapaði í dag fyrir heimsmeisturum Rússa 21:30 og er úr leik í mótinu en Anna segir íslensku handboltakonurnar hafa lært mikið af þáttöku sinni í mótinu og viti nú hvar þær standi í samanburði við þær bestu í heiminum.

„Þær rússnesku hafa reynsluna og söguna með sér auk þess sem þær eru hörkugóðar. Þær voru ekki lengi að refsa okkur þegar við gerðum mistök. Það er mikil reynsla fyrir okkur að fá að taka á þeim. Þær eru þvílíkt stórar og sterkar. Ég held að við höfum aldrei hlegið jafn mikið að einu atviki í keppninni eins og því sem gerðist í leiknum í dag, þegar ein þeirra rússnesku fékk dæmt á sig ruðning og við Rakel lágum báðar eftir. Það segir ýmislegt um líkamlegan styrk þeirra,“ sagði Anna Úrsúla við mbl.is í Árósum í kvöld. 

Anna segir íslensku leikmennina vera reynslunni ríkari: „Eins er það mikil reynsla fyrir okkur að fá að taka þátt í stórmóti og spila gegn liðum í þessum gæðaflokki. Þetta er eiginlega í fyrsta skipti sem við erum að taka á móti liðum trekk í trekk sem eru með miklu hávaxnari leikmenn en við. Það er afskaplega gott að vita hvar við stöndum gagnvart þessum þjóðum og þessi reynsla á eftir að nýtast okkur vel. Það er ágætt að hafa í huga að hæðin og þyngdin er ekki allt þó við séum litla og mjóa liðið í þessum riðli. Mér líður eins og fyrirsætu hérna því ég er svo grönn í samanburði við andstæðingana.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert