Guðmundur: Vanvirðing við heimsklassaleikmenn

Guðmundur Þórður Guðmundsson lætur í sér heyra í leiknum gegn …
Guðmundur Þórður Guðmundsson lætur í sér heyra í leiknum gegn Króötum í gærkvöld. Reuters

„Það er mjög dapurlegt að upplifa að svona sé komið fram við lið sem taka þátt í Evrópukeppni,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, í gærkvöldi, spurður út í þá dæmalausu uppákomu sem varð fyrir viðureign Íslands og Króatíu í gærkvöldi þegar liðin fengu aðeins fimm mínútur til að hita upp fyrir leikinn.

„Eftir því sem Einar [Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ] segir mér þá var mótshöldurum bent á þetta á fundi í haust að það væri alltof lítill tími gefinn á milli leikja. Þeir hafa greinilega ekkert tekið mark á þeim ábendingum. Við vorum hreinlega heppnir að ná þó fimm mínútum í upphitun, sá tími hefði getað verið ennþá styttri ef viðureign Noregs og Slóveníu hefði dregist meira en hún gerði. Hugsanlega hefði ekki verið neinn tími til að hita upp,“ segir Guðmundur, sem ásamt Einari mótmælti harðlega þessari framkomu mótshaldara og eins kom Guðmundur óánægju sinni á framfæri á blaðamannafundi eftir leikinn með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti.

Ekki er hægt að hnika til tímasetningum leikja héðan af því sjónvarpsstöðvar sem keypt hafa sýningarréttinn hafa neglt tímana niður í sína dagskrá fyrir löngu.

„Ég hef aldrei, á öllum mínum ferli, sem leikmaður og síðar þjálfari, upplifað það að leikmenn fá ekki nema fimm mínútur úti á gólfi til þess að hita upp. Ég efast um þetta hafi nokkru sinni gerst áður. Ef það væri upphitunarhöll við keppnishöllina væri hægt að búa við þetta, en því miður er engin upphitunaraðstaða fyrir hendi, aðeins stuttur gangur sem nýtist ekki stórum hópi handknattleiksmanna. Það er kannski í lagi að byrja á að hlaupa eftir gangi í tíu mínútur en síðan verða leikmenn að komast út á leikvöll og hita upp axlirnar með sendingum, hita upp markverðina, taka skot á mörk og fara í hraðaupphlaup, svo allt sé komið í eðlilegan gang þegar leikurinn hefst.

Svona vinnubrögð eins við upplifðum að þessu sinni kalla einfaldlega á meiðsli,“ segir Guðmundur sem veit ekki hvernig hægt er að leysa þetta mál en Ísland leikur aftur seinni leik dagsins á morgun þegar spilað verður við Noreg á sama stað. „Þá lendum við aftur í sömu aðstöðu ásamt Norðmönnum því þá verða sömu tímasetningar á leikjum og voru í dag. Ég veit hreinlega ekki hvernig ég á að leysa úr þessari stöðu. “

„Þetta hefur ekkert með úrslit leiksins að gera því bæði lið standa jafnt að vígi. Það er hreinlega vanvirðing við þessa frábæru heimsklassaleikmenn að bjóða þeim ekki upp á betri tíma til þess að gera sig klára fyrir leik,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert