Leikirnir í lokaumferð D-riðils Evrópumótsins í Vrsac í dag ráða úrslitum um hvaða tvær þjóðir fylgja Króatíu yfir í milliriðil keppninnar. Þar getur hvert mark skipt máli, fyrst í leik Íslands og Slóveníu og síðan í leik Noregs og Króatíu.
Hjá íslenska liðinu er staðan einföld að því leyti að ef liðið fær stig úr leiknum, með sigri eða jafntefli, fer liðið áfram í milliriðilinn og tekur með sér sigurleikinn gegn Noregi og tapleikinn gegn Króatíu.
Síðan verður málið aðeins flóknara ef leikurinn við Slóvena tapast. Vinni slóvenska liðið leikinn er það komið í milliriðilinn og annaðhvort Noregur eða Ísland falla úr keppni. Þá ræðst framhaldið af því hvernig fer hjá Noregi og Króatíu og Ísland verður þar að treysta á króatískan sigur. Nái Norðmenn stigi fara þeir áfram og þá myndi íslenska liðið falla úr keppni út af innbyrðis ósigrinum gegn Slóvenum.