Það fer vart á milli mála að Slóvenar gáfu Íslendingum tvö síðustu mörkin í leik þjóðanna á Evrópumótinu í handknattleik í kvöld, til þess að standa sjálfir betur að vígi í milliriðli keppninnar.
Staðan var 34:30 fyrir Slóvena þegar ein mínúta var eftir. Hefðu þeir unnið með fjögurra marka mun, hefði íslenska liðið verið úr leik. Það hefði þýtt að Slóvenar hefðu farið stigalausir í milliriðilinn.
Eins til þriggja marka sigur á Íslandi þýddi hinsvegar að Slóvenar munu taka með sér tvö stig í milliriðilinn, svo framarlega sem Norðmenn tapa fyrir Króötum á eftir og Íslendingar komast áfram.
Slóvenar tóku leikhlé þegar tæp mínúta var eftir og einn leikmanna þeirra setti handklæði fyrir hljóðnema sjónvarpsins, svo ekki heyrðist hverjar fyrirskipanir þjálfarans væru.
Síðan hófst leikurinn að nýju. Uros Zorman, hinn reyndi leikstjórnandi Slóvena, tapaði boltanum tvisvar í röð og Íslendingar skoruðu tvisvar. Þegar Kári Kristján Kristjánsson skoraði fyrra markið reyndi enginn Slóveni að ná frákastinu eftir að Skof markvörður hafði varið fyrra skot Íslands frá Þóri Ólafssyni.
Væntanlega hafa Norðmenn í höllinni í Vrsac ekki verið hressir með þessar lyktir mála.