Slóvenar gáfu íslenska landsliðinu eftir tvö mörk undir lok leiks þjóðanna á Evrópumótinu í handknattleik. Heimildir herma að þjálfari Slóvena hafi notað leikhléið sem hann tók um einni mínútu fyrir leikslok til þess að skipa leikmönnum sínum að gefa Íslendingum marktækifæri til þess að minnka muninn, en þá voru Slóvenar fjórum mörkum yfir.
Hefði sá munur staðið í lokin hefðu Slóvenar og Norðmenn verið öryggir um að komast áfram. Slóvenar án stiga en Norðmenn með að minnsta kosti tvö eftir sigur á Slóvenum á mánudaginn.
Eftir leikhléið gáfu leikmenn Slóvena eftir og m.a. kastaði Uros Zorman í tvígang boltanum út af leikvellinum. Þá reyndu þeir ekki að taka frákast þegar varið var frá Þóri Ólafssyni í horninu. Í framhaldinu var markvörðurinn skammaður fyrir að verja skotið frá Þóri.
Ef Króatar vinna Noreg fer Slóvenía áfram með tvö stig, Ísland ekkert og Króatar fjögur.