Björgvin Páll Gústavsson markvörður íslenska landsliðsins segist hafa spilað langt undir eigin væntingum á Evrópumeistaramótinu í handknattleik og fyrstu klukkutímarnir eftir síðustu leiki hafi verið erfiðir.
„En nú hefst nýtt mót, á nýjum stað gegn nýjum andstæðingum," segir Björgvin sem segir íslenska liðið í heild verið að horfa meira inn á við heldur en á við hvaða andstæðing það er að glíma við hverju sinni. „Það er hægt að laga það sem miður hefur farið því við höfum á köflum leikið vel í þessu móti,“ segir Björgvin Páll ennfremur.
„Ég hef leikið verr en ég ætlaði mér og þarf að einbeita mér svolítið að sjálfum mér á næstunni með aðstoð strákanna í liðinu. Ég hef sjaldan verið í betra fomri og það er ekkert að líkamlegt að hrjá mig. Ég er kannski í of góðu formi,“ segir Björgvin Páll sem fær nýjan samherja í stöðu markvarðar í dag þegar íslenska landsliðið mætir Ungverjum í 1. umferð milliriðlakeppni Evrópukeppninnar. Aron Rafn Eðvarðsson kom inn í hópinn í gær í stað Hreiðars Levý Guðmundssonar.
Leikur Íslands og Ungverjalands hefst í íþróttahöllinni í Novi Sad kl. 15.10.