Sannfærandi sigur á Ungverjum

Björgvin Páll Gústavsson fagnar eftir að hafa varið skot gegn …
Björgvin Páll Gústavsson fagnar eftir að hafa varið skot gegn Ungverjum í dag. mbl.is/Hilmar Þór

Ísland fékk sín fyrstu stig í milliriðli á EM í handbolta í Serbíu í dag þegar liðið vann sannfærandi sigur á Ungverjalandi  í Novi Sad 27:21. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Staðan í riðlinum er þá þannig að Króatía er með 4 stig, Spánn 3, Ungverjaland 3, Slóvenía 2, Ísland 2 og Frakkland 0. Á eftir leik Íslands og Ungverjalands mætast Frakkland og Slóvenía og loks Spánn og Króatía.

Íslenska liðið átti mjög góðan leik en Ungverjaland hafði unnið Frakkland og gert jafntefli við Spánverja í riðlakeppninni. Sóknarleikurinn var nokkuð stirður fyrsta korterið en eftir það var hann afar góður á móti vörn sem hefur verið mjög sterk í mótinu. Hafa verður einnig í huga að Alexander Petersson var hvíldur vegna meiðsla. 

Ólafur Bjarki Ragnarsson fékk talsvert að spreyta sig og Rúnar Kárason kom inn á þegar um tíu mínútur voru eftir. Skoruðu þeir báðir í fyrsta skipti á stórmóti og sýndu að óhætt er að dreifa álaginu á hópinn.

Arnór Atlason átti frábæran leik og var markahæstur með 5 mörk ásamt Guðjóni Val Sigurðssyni. Arnór átti auk þess fjöldann allan af stoðsendingum. Vignir Svavarsson fór fyrir íslenska liðinu í vörninni og átti stórleik. 

Ísland á enn tölfræðilega möguleika á því að endurtaka afrekið frá því í Austurríki fyrir tveimur árum og komast í undanúrslit en til þess þarf liðið vitaskuld að leggja bæði Spánverja og Frakka að velli. 

Lið Íslands: Björgvin Páll Gústavsson, Aron Rafn Eðvarðsson - Vignir Svavarsson, Kári Kristján Kristjánsson, Aron Pálmarsson, Ingimundur Ingimundarson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Arnór Atlason, Þórir Ólafsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Ólafur A. Guðmundsson, Alexander Petersson, Sverre Jakobsson, Róbert Gunnarsson, Ólafur Bjarki Ragnarsson, Rúnar Kárason.

Lið Ungverjalands: Nándor Fazekas, Roland Mikler - Ferenc Ilyés, Gábor Császár, Tamás Mocasi, Gergö Iváncsik, Tamás Iváncsik, Gergely Harsányi, Barna Putics, Milorad Krivokapics, Balázs Laluska, Kornél Nagy, Szabolcs Zubai, Timuzsin Schuch, Gábor Ancsin.

Arnór Atlason brýst í gegnum vörn Ungverja í leiknum í …
Arnór Atlason brýst í gegnum vörn Ungverja í leiknum í dag. mbl.is/Hilmar Þór
Ísland 27:21 Ungverjaland opna loka
60. mín. Aron Pálmarsson (Ísland ) skoraði mark Sirkusmark eftir sendingu Guðjóns Vals.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert