Danir unnu Serba í úrslitum á Evrópumótinu í handknattleik karla í dag, 21:19. Danir eru því Evrópumeistarar og það í annað skiptið í sögunni. Þeir urðu einnig Evrópumeistarar árið 2008 í Noregi. Serbar sem spiluðu á heimavelli höfðu hvorki gæði né taugar í úrslitaleiknum til að leggja Dani að velli, þrátt fyrir góðan stuðning áhorfenda í höllinni í Belgrad.
Staðan í hálfleik var 9:7 Dönum í vil og í þeim síðari héldu Danirnir ávallt frumkvæðinu. Þeir komust mest í 4 marka forskot 11:7 í byrjun síðari hálfleiks. Varnir liðanna voru í aðalhlutverki og þar átti Kasper Nielsen frábæran leik fyrir miðju varnar Dana. Fyrir aftan hann stóð svo Niklas Landin markvörður sem átti einnig frábæran leik.
Markahæstur í liði Dana var Mikkel Hansen sem spilaði frábærlega, skoraði bæði fyrsta og síðasta mark Dana og 9 mörk alls. Anders Eggert Jensen kom næstur Hansen með þrjú mörk, öll í fyrri hálfleik. Hjá Serbum var það Rajko Prodanovic sem var atkvæðamestur með 4 mörk.
Sigurinn er enn ein rósin í hnappagat Ulrik Wilbek, þjálfara liðsins, sem hefur einnig gert kvennalið Dana að margföldum meisturum. Það er einnig athyglisvert að Danir fóru án stiga í milliriðilinn. Það hefur aldrei gerst áður að lið sem er í þeirri stöðu vinni Evrópumeistaratitilinn.
Danir stöðva þar með sigurgöngu Frakka sem hafa unnið öll stórmót í handknattleik síðan Danir unnu Evrópumótið 2008.