Króatía vann Spán 31:27 í leik um bronsverðlaun í dag á Evrópumótinu í handknattleik karla sem fram fer í Serbíu. Króatarnir höfðu yfir í hálfleik, 13:12, og sýndu svo mátt sinn og megin í síðari hálfleik.
Króatar höfðu frumkvæðið allan leikinn eftir að hafa skorað tvö fyrstu mörk leiksins. Spánverjar minnkuðu muninn undir lok fyrri hálfleiks í eitt mark með þremur síðustu mörkum hálfleiksins. Í þeim síðari náði Króatía fljótt 4 marka forskoti sem þeir létu aldrei af hendi.
Markahæstir í liði Króata voru Blazenko Lackovic með 7 mörk og þeir Igor Vori og Ivan Cupic skoruðu báðir 6 mörk. Hjá Spánverjum var það Daniel Sarmiento sem skoraði 7 og Iker Romero var með 6.
Þetta eru önnur bronsverðlaun Króata á Evrópumóti en þeir unnu einnig bronsið á fyrsta Evrópumótinu sem fram fór í Portúgal árið 1994. Besti árangur Króatíu er silfur bæði árið 2008 í Noregi og 2010 í Austurríki. Króatar hafa verið með á öllum lokamótum keppninnar en lélegasti árangur þeirra var árið 2002 þegar liðið hafnaði í 16 sæti. Mótið fór þá fram í Svíþjóð.
Króatar sem voru með Íslendingum í riðli töpuðu fyrir Serbum í undanúrslitum en Serbía og Danmörk eigast við í úrslitaleiknum klukkan 16 í dag.