Aron Pálmarsson tryggði Íslandi sigur á Rússlandi, 35:34, með marki á síðustu sekúndu leiksins í fyrsta leik liðsins á fjögurra þjóða móti sem hófst í Dortmund í Þýskalandi í dag.
Íslandi var einu marki yfir í hálfleik, 19:18. Eins og tölurnar gefa til kynna var mikið skorað í leiknum enda lítið um varnir og markvörslu. Markvarsla íslenska liðsins var sérlega slæm.
Björgvin Páll Gústavsson reyndist þó einnig hetja liðsins í síðustu sókn Rússlands þegar hann varði skot úr horninu en strákarnir okkar léku síðustu mínútuna manni færri.
Í lokasókn Íslands var Aroni einfaldlega réttur boltinn og hann klíndi tuðrunni í samskeytin fjær með mann í sér úr skyttustöðunni hægra megin. Magnað mark úr erfiðri stöðu.
Aron var markahæsti leikmaður Íslands í dag með sjö mörk en Þórir Ólafsson, sem var gríðarlega drjúgur á síðustu mínútum, skoraði sex mörk.
Ásgeir Örn Hallgrímsson og Rúnar Kárason voru öflugir á hægri vængnum í fyrri hálfleik en minna sást til þeirra í þeim síðari.
Snorri Steinn Guðjónsson kom ekkert við sögu í leiknum í dag en hann er lítillega meiddur. Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Atlason fóru ekki með út vegna meiðsla.
Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið.
Mörk Íslands: Aron Pálmarsson 7, Þórir Ólafsson 6, Ásgeir Örn Hallgrímsson 5, Róbert Gunnarsson 4/2, Stefán Rafn Sigurmannsson 4, Rúnar Kárason 4, Ólafur Bjarki Ragnarsson 2, Ólafur Guðmundsson 1, Bjarki Már Gunnarsson 1, Kári Kristján Kristjánsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 8 (þar af 4 aftur til mótherja), Aron Rafn Eðvarðsson 4.
Mörk Rússlands: Konstantin Igropulo 8/1, Pavel Atman 6, Dimitry Kovalev 5/3, Alexander Pyshkin 4, Sergei Gorbok 4, Oleg Skopintsev 2, Nail Aflitulin 2, Alexei Polyakov 1, Danill Shishkarev 1, Sergey Shelmenko 1.
Varin skot: Igor Levshin 15/2 (þar af 11 aftur til mótherja), Vadim Bogdanov 6 (þar af 3 aftur til mótherja).