Lærisveinar Patreks lögðu Þjóðverja

Patrekur Jóhannesson stýrir Haukum og austurríska landsliðinu.
Patrekur Jóhannesson stýrir Haukum og austurríska landsliðinu. mbl.is/Ómar

Austurríkismenn undir stjórn Patreks Jóhannessonar geta þakkað markverðinum Nikola Marinovic fyrir sigurinn á Þjóðverjum, 29:28, á fjögurra landa alþjóðlegu móti sem hófst í Dortmund í Þýskalandi í dag.

Lærisveinar Patreks höfðu tögl og haldir á leiknum þökk sé m.a. frábærri frammistöðu Marinovic en þegar sjö mínútur voru til leiksloka var Austurríki með fimm marka forustu, 27:22.

Hraðinn var mikill á lokamínútunum og byrjuðu Þjóðverjar að raða inn mörkum úr hraðaupphlaupum. Þeir skoruðu sex mörk gegn einu og jöfnuðu leikinn, 28:28, þegar 30 sekúndur voru til leiksloka.

Austurríkismenn komust aftur yfir, 29:28, með langskoti en Þýskaland fékk kjörið tækifæri til að ná sér í stig þegar brotið var illa á Patrik Groetzki sem var sloppinn í gegn er fimm sekúndur voru eftir.

Víti var dæmt og fór Uwe Gensheimer, leikmaður Rhein-Neckar Löwen, á línuna en Marinovic gerði sér lítið fyrir og fullkomnaði stórleik sinn með því að verja vítið og tryggja Austurríki eins marks sigur í frábærum leik.

Ísland og Austurríki, sem mætast á morgun klukkan 14.00, eru efst eftir fyrsta dag mótsins með tvö stig en Ísland trónir á toppnum þökk sé fleiri mörkum skoruðum eftir 35:34-sigurinn á Rússlandi fyrr í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert