Handboltavefurinn handball-planet.com spáir Íslendingum 7.-8. sæti ásamt Svíum í úrslitakeppni Evrópumótsins í Danmörku en keppnin hefst um komandi helgi.
Í umsögn um íslenska liðið segir að það sé slæmt fyrir liðið að spila án Alexanders Peterssons sem sé driffjöðrinn í sóknarleiknum og það sé ekki nægilega öflugt til að komast í undanúrslitin.
Danir hampa Evrópumeistaratitilinum á heimavelli samkvæmt spánni og þar spili heimavöllurinn stóra rullu en bent er á að Þjóðverjar hafi orðið heimsmeistarar á heimavelli árið 2007 og Spánverjar hafi leikið sama leik á HM á Spáni fyrir ári síðan.
Króatar lenda í 2. sæti og Frakkar og Spánverjar berjast um bronsið. Í sætum 5-6 er því spáð að Ungverjar og Serbar lendi, Íslendingar og Svíar í sætum 7-8, Pólverjar og Makedóníumenn í sætum 9-10, Tékkar og Hvít-Rússar í sætum 11-12 og Austurríkismenn, Norðmenn, fyrstu mótherjar Íslendinga á mótinu, Rússar og Svartfellingar raði sér í sætin 13-16.