Aron: Ungverjar líkamlega sterkari en Norðmenn

„Ungverjar eru líkamlega sterkari en Norðmenn og hafa innan síns liðs stórar og öflugar skyttur," segir Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, spurður um hver sé megin munurinn á norska landsliðinu, sem íslenska landsliðið lék við í gær, og því ungverska sem íslenska landsliðið mætir á morgun í annarri umferð B-riðils Evrópumeistaramótsins.

„Síðan hefur ungverska liðið tvo mjög klóka miðjumenn sem leika vel með línumönnunum. Varnarlega eru þeir stórir og sterkir. Þeir standa þéttar saman á miðjunni, fylla meira út í plássið. Fyrir vikið verðum við að ná þeim á hreyfingu og halda ákveðinni fjarlægð á milli okkar og nýta þær opnanir sem gefast.

Við erum að reyna að stilla okkur af. Við lágum yfir upptökum af ungverska liðinu fram á kvöld. Höfum fundað einu sinni með strákunum og gerum það aftur í kvöld," sagði Aron eftir æfingu íslenska landsliðsins í minni íþróttasal í Gigantium-höllinni í Álaborg.

Aron segir að miklar líkur vera fyrir því að nafni hans Pálmarsson verði með í leiknum á morgun en hann snéri sig á ökkla snemma leiks gegn Norðmönnum í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert