Ungverjar jöfnuðu í lokin

Ísland og Ungverjaland skildu jöfn, 27:27, í B-riðli Evrópumótsins í handbolta í dag. Ungverjar skoruðu jöfnunarmarkið átta sekúndum fyrir leikslok.

Ísland er engu að síður komið í milliriðil því Noregur, Ungverjaland og Ísland fá ekki öll þrjú stig úr því sem komið er. Nú vonumst við eftir því að Spánn vinni Noreg og Noregur vinni svo Ungverjaland í lokaumferðinni. Þá förum við með tvö stig í milliriðil.

Ungverjar voru einu marki yfir í hálfleik, 16:15, og hefði forysta þeirra hæglega getað verið meiri. Varnarleikur Íslands var í molum og markvarslan eftir því en Björgvin Páll Gústavsson var tekinn af velli eftir 12 mínútur og hafði þá ekki varið skot.

Aron Pálmarsson var öflugur í fyrri hálfleiknum og skoraði fimm mörk, eitt alveg ótrúlegt í skrefinu af 13 metrum þegar hendur dómaranna voru komnar upp til merkis um leikleysu.

Mikilvæg tvö mörk frá Ásgeiri Erni

Stórskyttur Ungverja fengu of oft að lyfta sér upp óáreittar og skjóta á markið, þá sérstaklega Gábor Ancsin hægra megin en hann skoraði fimm mörk í fyrri hálfleik.

Ísland var mest fjórum mörkum undir í hálfleik, 10:6, eftir þrettán mínútna leik en þá lagaðist varnarleikurinn aðeins og níu mínútum síðar var munurinn orðinn eitt mark, 11:10.

Aftur náðu Ungverjar þriggja marka forystu, 16:13, en strákunum okkar gekk illa að jafna metin þrátt fyrir að fá nóg af tækifærum til þess. Þeir fóru illa með nokkur dauðafæri en Roland Mikler í marki Ungverja var einnig öflugur og varði ellefu skot í fyrri hálfleik.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði engu að síður tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og minnkaði muninn í eitt mark, 16:15.

Sex íslensk í röð

Ungverjar skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiks en þá fóru okkar strákar í gang, skoruðu sex næstu mörk og breyttu stöðunni í 20:17 og 20 mínútur til leiksloka. Þá kom aftur góður kafli hjá Ungverjum sem komust aftur yfir, 24:23, þegar tíu mínútur voru eftir.

Lokamínúturnar voru æsispennandi en Guðjón Valur Sigurðsson jafnaði metin, 26:26, þegar sex mínútur voru eftir og ekki var skorað mark næstu þrjár mínúturnar.

Ungverjar misstu mann af velli þegar innan við tvær mínútur voru eftir og það nýttu Íslendingar sér og skoraði Rúnar Kárason, 27:26, þegar rétt rúm mínúta lifði leiks.

Manni færri fóru Ungverjar í sókn og fengu endalausan tíma til að finna sér skotfæri gegn öflugri íslenskri vörn. Dómararnir hefðu fyrir löngu átt að dæma á þá leiktöf en Máté Lékai reyndist hetja Ungverja þegar hann skoraði jöfnunarmarkið átta sekúndum fyrir leikslok.

Lokaskotið varið

Ásgeir Örn Hallgrímsson tók lokaskot Íslands þegar fimm sekúndur voru eftir en vörnin varði það og þurftu strákarnir að sætta sig við svekkjandi jafntefli, 27:27.

Nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið en viðtöl koma inn á mbl.is nú strax eftir leik.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu sem lesa má hér að neðan. Eins má sjá markaskorið en Aron Pálmarsson var markahæstur með átta mörk og Guðjón Valur skoraði fimm.

Aron Rafn Eðvarðsson var öflugur í markinu í seinni hálfleik en hann varði alls ellefu skot, þar af eitt vítakast.

Ísland 27:27 Ungverjaland opna loka
60. mín. Máté Lékai (Ungverjaland) skoraði mark Vörnin stóð frábærlega en skot utan af velli endar í netinu. NEEEEII!
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka