Fimm marka tap gegn Spánverjum

Íslendingar töpuðu fyrir heimsmeisturum Spánverja í lokaleik sínum í B-riðli Evrópumótsins í handknattleik í Álaborg. Lokatölur urðu 33:28 sem gefur þó ekki alveg rétta mynd af leiknum.

Spánverjar voru skrefinu framar í upphafi og voru ávallt einu til tveimur mörkum yfir. Íslendingar sýndu hins vegar mikinn baráttuvilja og Björgvin Páll Gústavsson varði meðal annars tvö vítaskot á fyrstu tólf mínútunum.

Um miðbik hálfleiksins kom frábær kafli hjá Íslandi sem skoraði þá sex mörk gegn einu frá Spánverjum, komust yfir og náðu þriggja marka forystu, 15:12. Spánverjar skoruðu hins vegar fjögur mörk á síðustu þremur mínútunum og voru með eins marks forystu í hálfleik, 16:15.

Íslendingar komu þó grimmir til leiks eftir hlé og náðu aftur þriggja marka forystu þegar tuttugu mínútur voru eftir. Þá kom hrikalegur kafli þar sem Spánverjar skoruðu sex mörk í röð og var róðurinn ansi þungur eftir það.

Ekkert gekk upp síðustu mínúturnar og Spánverjar gengu á lagið og bættu við mörkum. Lokatölur 33:28 sem verður að teljast óþarflega stórt tap miðað við hvernig leikurinn spilaðist.

Aron Pálmarsson skoraði 8 mörk fyrir Íslendinga og Björgvin Páll Gústavsson varði 15 skot í markinu. Hjá Spánverjum var Joan Canellas með 8 mörk.

Spánverjar vinna því riðilinn með fullt hús stiga en það kemur í ljós eftir leik Ungverja og Norðmanna í kvöld hvort við förum áfram í milliriðil með eitt eða tvö stig.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is

Ísland 28:33 Spánn opna loka
60. mín. José Manuel Sierra (Spánn) varði skot
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert