Heimsmeistarar Spánverja bíða íslenska landsliðsins í kvöld í lokaleik B-riðils Evrópumeistaramótsins í handknattleik.
Að vanda eru Spánverjar með afar sterkt lið þótt nokkrar breytingar hafi orðið á því frá því þeir urðu heimsmeistarar fyrir ári á heimavelli. Alberto Entrerrios er hættur og sömu sögu er að segja af markverðinum þrautreynda Jose Hombrados, sem hafði verið aðalmarkvörður landsliðsins nærri því svo lengi sem elstu menn muna.
Arpid Sterbik, hinn markvörður heimsmeistaraliðsins er meiddur, og þar af leiðandi fjarri góðu gamni að þessu sinni. Sömu sögu er að segja af línumanninum Julen Aguinagalde. Hann er meiddur en þó ekki verr en svo að hann er með spænska hópnum í Danmörku. Talið er líklegt að hann verði kallaður inn í hópinn þegar komið er í milliriðil í Herning. Hinn stórefnilegi en reynslulitli leikmaður Alex Dujshebaev handarbrotnaði í kappleik viku fyrir mót og er skarð fyrir skildi.
Einnig hafa orðið þjálfaraskipti hjá Spánverjum frá heimsmeistaramótinu. Valero Rivera sagði starfi sínu lausu og tók við þjálfun landsliðs Katars fyrir heimsmeistaramótið sem haldið verður í olíuríkinu að ári liðnu. Við starfi hans tók annar gamalreyndur þjálfari, Montanes Cadenas. Hann er þrautreyndur og var aðalmaðurinn á bak við velgengni Ademar León um tuttugu ára skeið í lok síðustu aldar og fram á fyrsta áratug þessarar. Cadenas var um skeið þjálfari Teka þegar Kristján Arason lék þar um langt árabil.
Þótt nýr maður sé kominn í brúna hjá spænska landsliðinu og einhverjir leikmenn hafi helst úr lestinni af ýmsum ástæðum og aðrir komið í staðinn hefur leikaðferð liðsins ekkert breyst. Leikmenn vinna mikið tveir og tveir saman eða einn og einn, miðjumaður með línumanni eða skyttur með línumanni og síðan er „böðlast“ í gegnum varnir andstæðinganna.
Sjá allt um EM í handknattleik í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag