Allt gekk upp gegn Austurríki

Íslenska landsliðið í handknattleik hóf leik í milliriðli Evrópumótsins sannarlega af krafti. Liðið rúllaði yfir lærisveina Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu með sex marka mun. Lokatölur urðu 33:27.

Íslendingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og höfðu frumkvæðið frá upphafi. Liðið var mjög hreyfanlegt bæði í vörn og sókn auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson var góður í markinu, en hann varði átta skot í fyrri hálfleik sem var sannarlega glæsilega spilaður hjá íslenska liðinu.

Að sama skapi var Patrekur Jóhannesson langt frá því að vera sáttur með sína menn í liði Austurríkis. Eftir fjórtán mínútna leik hafði hann tekið tvö leikhlé til að reyna að vekja sína menn. Patrekur hefur líklega óskað þess að eiga fleiri leikhlé inni í fyrri hálfleik því það gekk ekkert upp hjá lærisveinum hans. Bilið breikkaði ört og þegar mest var munaði níu mörkum á liðunum. Austurríkismenn skoruðu þó síðasta mark hálfleiksins og var staðan 17:9 fyrir Ísland þegar leikmenn gengu til búningsherbergja.

Hrókerað í síðari hálfleik

Austurríkismenn byrjuðu þó leikinn vel í síðari hálfleik og skoruðu tvö fyrstu mörk hans þrátt fyrir að vera einum leikmanni færri. En strákarnir voru fljótir að vakna og héldu uppteknum hætti í sókninni. Varnarlega fór aðeins að draga af og Austurríkismenn voru duglegir að opna hornin.

Það dugði þó ekki til þess að Austurríkismenn kæmust aftur inn í leikinn. Aron Kristjánsson var duglegur að dreifa álaginu á milli manna og tóku allir leikmenn þátt. Það fór aðeins að draga af íslensku strákunum undir lokin, liðið skoraði ekki mark í sex mínútur en þrátt fyrir það var sigurinn aldrei í hættu. Ísland var einfaldlega miklu betra og uppskar frábæran sex marka sigur, 33:27.

Menn tóku á sig ábyrgð

Leikurinn var frábær hjá íslenska liðinu. Menn voru að taka af skarið þegar á reyndi og áttu þeir Ólafur Guðmundsson og Arnór Þór Gunnarsson flotta innkomu í liðið. Ólafur var að spila í fyrsta sinn að ráði í þessu móti og hann var markahæstur eftir fyrri hálfleikinn með fjögur mörk.

Varnarlega börðust menn fyrir hvern annan og Austurríkismenn voru oft ráðalausir gegn íslensku vörninni, sérstaklega í fyrri hálfleik. Bjarki Már Gunnarsson var með Roland Schlinger í strangri gæslu og þar fyrir aftan var Björgvin Páll í stuði og það skilaði sannarlega sínu, en Björgvin varði sextán skot í markinu.

Ísland er nú komið með þrjú stig í milliriðlinum og jafnaði um leið Ungverja að stigum í þriðja til fjórða sætinu.

Ísland 33:27 Austurríki opna loka
60. mín. Björgvin Páll Gústavsson (Ísland) varði skot En Austurríki fær aukakast.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert