Danskur sigur dró úr vonum Íslands

Hans Lindberg fagnar einu marka Dana í kvöld.
Hans Lindberg fagnar einu marka Dana í kvöld. AFP

Evrópumeistarar Dana unnu sannfærandi sigur á heimsmeisturum Spánverja, 31:28, í lokaleik kvöldsins í milliriðli Evrópumóts karla í handknattleik í Herning.

Þessi úrslit eru óhagstæð fyrir Íslendinga en möguleikar íslenska liðsins á að komast í undanúrslitin á EM voru fyrst og fremst fólgnir í því að Danir myndu ekki vinna leikinn í kvöld. Núna þarf mjög óvænt úrslit í leikjum Dana eða Spánverja í tveimur síðustu umferðum milliriðilsins til að opna raunhæfa möguleika fyrir íslenska liðið.

Eftir tvísýnan slag í fyrri hálfleik komust Danir í 16:14 fyrir hlé. Þeir juku forskotið fljótlega í seinni hálfleiknum og voru með sigurinn í höndunum nokkru fyrir leikslok en staðan var orðin 30:24 þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka.

Mikkel Hansen skoraði 6 mörk fyrir Dani, Kasper Söndergaard 5 og Michael Knudsen 4. Antonio García skoraði 5 mörk fyrir Spán, Albert Rocas, Víctor Tomás og Raúl Entrerríos 4 mörk hver.

Gríðarleg stemning var í Jyske Bank Boxen á leiknum í kvöld þar sem setið var upp í rjáfur. Alls voru um 14 þúsund áhorfendur og nær allir á bandi danska liðsins. Ljóst er að andstæðingar Dana munu ekkim eiga auðvelt með að  sækja sigur í greipa Dana í þessari tilkomu miklu íþrótta- og sýningarhöll.

Staðan í milliriðlinum:
Danmörk 6 stig
Spánn 4 stig
Ísland 3 stig
Ungverjaland 3 stig
Makedónía 2 stig
Austurríki 0 stig

Danir spila næst við Ungverja og verða að tapa minnst stigi þar til að Ísland eigi möguleika fyrir viðureign liðanna í lokaumferðinni. Að því gefnu að Ísland sigri Makedóníu á mánudaginn.

Spánverjar eiga eftir að mæta Makedóníu og Austurríki og fái þeir 3 stig úr þessum leikjum getur Ísland ekki komist uppfyrir þá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka