Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands, var fyrst og fremst létt eftir tveggja marka sigur á Makedóníu í dag, 29:27.
„Þetta var mjög erfiður leikur og ég var skíthræddur um að þetta yrði erfitt. Ef þeir fá smá blóð á tennurnar og fá að spila lengi þá er mjög erfitt að eiga við þá,“ sagði Aron í viðtali við RUV eftir leik. Íslenska liðið byrjaði leikinn hræðilega en náðu á endanum undirtökunum.
„Við komum illa inn í leikinn. Við spiluðum góðan sóknarleik en klikkuðum úr dauðafærum. Við gerðum okkur seka um einbeitingarleysi og þeir ná forskoti sem gefur þeim blóð á tennurnar. Þá var þetta meiri barátta fyrir okkur en við vissum að þetta gæti orðið svona og héldum áfram að berjast.
Við byrjuðum seinni hálfleikinn svo ekki nægilega vel og þá var þetta erfitt. Það er erfitt að vinna við línumanninn þegar hann fær að vinna svona ólöglega,“ sagði Aron, sem var ekki par sáttur við dómgæsluna í leiknum.
„Ég er ekki sáttur með frammistöðu þeirra í svörtu búningunum. En ég er mjög ánægður með tvö stig því strákarnir sýndu karekter, þrátt fyrir að byrja illa kláruðum við þennan leik,“ sagði Aron Kristjánsson í viðtali við RUV.