Stefnan sett á sigur

Róbert Gunnarsson, Kári Kristján Kristjánsson og Gunnar Steinn Jónsson
Róbert Gunnarsson, Kári Kristján Kristjánsson og Gunnar Steinn Jónsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Við gerum allt það sem við getum til þess að búa okkur undir erfiðan leik við Dani fyrir framan 14 þúsund stuðningsmenn þeirra. Auðvitað förum við í hann til þess að vinna, annað kemur ekki til greina. Við munum leggja allt í sölurnar,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, óhikað á tíunda tímanum í gærkvöldi þegar ljóst var Ungverjum tókst ekki að leggja stein í götu Dana í leið þeirra í undanúrslit á Evrópumeistaramótinu í handknattleik.

Annað kvöld mætir íslenska landsliðið því danska sem ekki hefur tapað leik í mótinu í Jyske Bank Boxen í Herning. „Það verður kostur að vita hver staðan verður hjá okkur varðandi möguleikann á að spila um fimmta sætið þegar flautað verður til leiks okkar og Dana. Hvað sem því líður þá förum við ekki með öðru hugarfari til leiks en að sigra og njóta þess að leika eins vel og við getum við þessar frábæru aðstæður,“ sagði Aron einnig í samtali við Morgunblaðið.

„Danir eru með frábært lið þar sem valinn maður er í hverju rúmi, breiddin í leikmannahópnum er mikil og vart veikan punkt að finna. Við gerum okkur grein fyrir að það verður ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur,“ sagði Aron sem vonast til þess að geta stillt upp sínu allra sterkasta liði gegn Dönum annað kvöld. „Það væri óneitanlega gott að geta það. En hvort það verður mögulegt er ekki hægt að svara á þessari stundu. Aron Pálmarsson hefur til að mynda lítið leikið með okkur í tveimur síðustu leikjum.“ Hvort Arnór Atlason verði tilbúinn í slaginn annað kvöld er ekkert hægt að segja um á þessari stundu.

Sjá allt um EM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert