Aron: Mjög margir ljósir punktar

Aron Kristjánsson
Aron Kristjánsson Eva Björk Ægisdóttir

„Þessi árangur er virkilega góður hjá okkur. Eftir að hafa farið inn í mótið með marga leikmenn í meiðslum auk þess að nokkrir höfðu lítið leikið með sínum auk nokkurra sem verða eftir heima vegna meiðsla þá getum við verið mjög ánægðir með niðurstöðuna,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, eftir að ljóst varð að íslenska landsliðið í handknattleik hafnaði í 5. sæti undir hans stjórn á Evrópumeistaramótinu í dag.

„Við lögðum allt í sölurnar í leikjunum í riðlakeppninni til þess að komast áfram í milliriðlakeppnina. Það tók sinn toll af þeim sem voru meiddir og varð þess valdandi að sumir þeirra komu lítið við sögu í milliriðlakeppninni.  Síðan var hreint ótrúlegt að Guðjón Valur náði að spila nærri því alla leiki mótsins frá upphafi til enda eftir að hafa glímt við erfið meiðsli alveg fram að móti.

Síðan komu nokkrir inn í liðið á alveg hrikalegan jákvæðan hátt. Má þar nefna Gunnar Stein Jónsson. Hann kemur með mikið sjálfstraust inn í leikina, er agaður alltaf tilbúinn í slaginn.  Rúnar Kárason myndaði mjög gott par með Ásgeiri Erni Hallgrímssyni þar sem þeir eru afar ólíkir leikmenn. Ásgeir átti síðan alveg frábært mót eins fleiri. Markvarslan var mjög góð allt mótið. Síðan eignaðist landsliðið nýjan varnarmann í Bjarka Má Gunnarssyni.  Það eru margir ljósir punktar í þessu hjá okkur auk fimmta sætisins,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert