Geir Hallsteinsson, gamla kempan í íslenska landsliðinu í handknattleik og FH, ber mikið lof á Aron Kristjánsson, þjálfara íslenska landsliðsins í handknattleik.
„Aron á mikið hrós skilið. Mér finnst oft gleymast hversu frábært starf hann hefur unnið með liðið. Ég er búinn að fylgjast lengi með honum og alls staðar hefur hann náð góðum árangri. Aron hefur náð að vinna frábærlega úr þessum mannskap sem hann hefur úr að moða. Hann les leikinn einstaklega vel og það er ekki spurning í mínum huga að hann er efnilegasti þjálfarinn sem við eigum í dag. Hann á mikið hrós skilið fyrir frammistöðu landsliðsins á Evrópumótinu,“ sagði Geir við Morgunblaðið í gær en hann er af mörgum talinn einn besti handboltamaðurinn sem Ísland hefur alið af sér. gummih@mbl.is