Króatar brjálaðir: Líkara keilu en handbolta

Goluza þakkar króatískum áhorfendum í gær.
Goluza þakkar króatískum áhorfendum í gær. AFP

Slavko Goluza, þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta, tapaði sér á blaðamannafundi eftir tap liðsins gegn Dönum, 29:27, í undanúrslitum Evrópumótsins í Boxinu í Herning í gærkvöldi.

Goluza beindi reiði sinni ekki að danska liðinu heldur þýska dómaraparinu Lars Geipel og Marcus Helbig sem honum fannst hjálpa Dönum heldur mikið á leið sinni í úrslitaleikinn.

Hann var mjög óánægður með hversu oft hans leikmenn voru reknir af velli í tvær mínútur en ekki var alltaf dæmt eins hinum megin.

„Þetta var líkara keilu en handbolta. Leikmenn mínir féllu eins og keilupinnar. Fyrir fjórum árum ákvað ég að tala aldrei um dómarana en nú verð ég að brjóta það loforð. Við töpuðum því það var of margir á móti okkur í leiknum,“ sagði Goluza.

Leikmenn króatíska liðsins voru vægast sagt reiðir í leikslok og strunsuðu framhjá blaðamönnum án þess að veita viðtöl. Fyrir utan ummælin um dómarana neitaði Goluza og þeir leikmenn sem skikkaðir voru í viðtöl að ræða leikinn mikið. „No comment,“ var algengasta svarið.

Goluza nýtti aftur á móti tækifærið og skaut föstum skotum að gestgjöfunum. Sagði hann króatíska liðið hafa búið eins og dýr í riðlakeppninni í Bröndby og einnig í milliriðlinum í Árósum. Hlutirnir löguðust þó þegar til Herning var komið, sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert