Frakkar tóku Dani í kennslustund í handknattleik í úrslitaleiknum á Evrópumeistaramótinu í handknattleik karla. Þeir unnu með níu marka mun, 41:32, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 23:16.
Frakkar voru fljótir að breyta dönsku sigurhátíðinni í martröð með því að ná tíu marka forskoti í fyrri hluta fyrri hálfleiks með frábærum varnarleik og vel útfærðum sóknarleik þar sem aðeins einn maður í danska liðinu náði sér á strik, Mikkel Hansen. Aðrir léku undir getu. Varnarleikurinn var í molum og markvarslan engin.
Danir náðu að minnka muninn í sex mörk á kafla í síðari hálfleik en höfðu aldrei burði eða getu til þess að komast nær Frökkunum sem léku eins þeir sem valdið hafa frá upphafi til enda.
Michaël Guigou var markahæstur í franska liðinu með 10 mörk. Valentin Porte skoraði níu mörk, Luc Abalo skoraði sjö sinnum, Daniel Narcisse sex mörk, Nikola Karabatic skoraði fmm mörk og þeir Alix Nyokas og Cedric Sorhaindo tvö mörk hvor.
Mikkel Hansen var markahæstur Dana með níu mörk, Hans Lindberg skoraði sex mörk, Jepser Nöddesbo þrjú, Thomas Mogesen, Mads Christiansen, Bo Spelleberg tvö mörk hver. Mads Mensah, Anders Eggert, Rene Toft Hansen og Kasper Sönnegard skoruðu 1 mark hver.