Fórum að hlaupa eins og vitleysingar

Alexander Petersson í kröppum dansi gegn vörn Hvít-Rússa.
Alexander Petersson í kröppum dansi gegn vörn Hvít-Rússa. Ljósmynd/Foto Olimpik

„Þetta er mjög pirrandi,“ sagði Alexander Petersson, en frábær frammistaða hans í sókn Íslands dugði ekki til í tapinu gegn Hvíta-Rússlandi á EM í handbolta í Póllandi í kvöld.

Vonir stóðu til að hægt yrði að dreifa álaginu betur í leiknum í dag en í hnífjöfnum leiknum við Noreg í fyrrakvöld. Alexander spilaði hins vegar 43 mínútur í dag og dró ekkert af sér.

„Ég spilaði nánast meira en á móti Noregi. Maður reynir bara að hjálpa og ég gerði eins og ég gat, en vörnin hjá okkur öllum saman og markvarslan var ekki nógu góð,“ sagði Alexander. Mun betur gekk að verjast Norðmönnum en Hvít-Rússum:

„Þeir eru með öðruvísi leikmenn. Rutenka og miðjumaðurinn þeirra eru mjög reyndir leikmenn og klókari. Þeir fara ekki bara einn á móti einum og láta brjóta, heldur spila boltanum áfram og finna færi. Þetta var vel gert hjá þeim,“ sagði Alexander, og benti á að Ísland hefði átt að gera betur eftir að hafa komist í 24:20 rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok.

„Við klúðruðum leiknum sjálfir. Við vorum 3-4 mörkum yfir en fórum þá að hlaupa eins og vitleysingar. Ég veit ekki af hverju. Þarna áttum við frekar að taka því rólega og spila boltanum, en í staðinn keyrðum við á fullu,“ sagði Alexander.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert