Þráðurinn er slitinn

Aron Kristjánsson fylgist með leiknum við Hvít-Rússa.
Aron Kristjánsson fylgist með leiknum við Hvít-Rússa. Ljósmynd/Foto Olimpik

Aron Kristjánsson stýrði íslenska landsliðinu í handknattleik í síðasta sinn, að minnsta kosti að sinni, í tapleiknum við Króata á Evrópumeistaramótinu í fyrrakvöld. Framhjá því verður ekki litið. Enginn sem Aron þekkir efast um að hann hafi lagt sig fullkomlega fram í starfi síðan hann tók við í ágúst 2012. Það hefur því miður ekki dugað til.

Einhverra hluta vegna hefur Aron ekki náð til leikmanna, einkum nú á seinni hluta tímabilsins. Hugmyndir hans hafa ekki náð í gegn. Það er alveg ljóst, annars hefði árangurinn frá vormánuðum 2014 verið betri en raun ber vitni um. Sambandið milli leikmanna og þjálfara hefur af einhverjum ástæðum rofnað. Þannig blasir þetta við mér og og fleirum og nægir m.a. að fylgjast með leikhléum í mörgum síðustu leikjum til þess að sjá að þráðurinn milli leikmanna og þjálfara er slitinn.

Aron er ekki skaplaus maður en það var það ekki fyrr en síðasti leikurinn við Króata var gjörtapaður í stöðunni 11:2, eftir 14 mínútur sem hann sýndi örlitlar tilfinningar þegar hann öskraði á menn að þeir ættu að skilja allt sem þeir ættu eftir inni á leikvellinum. Það var of lítið og alltof, alltof seint.

Fyrsta stórmót landsliðsins undir stjórn Arons var HM 2013 á Spáni. Íslenska landsliðið hafnaði í 11. sæti og lék ekki vel. Talsvert var um meiðsli í leikmannahópnum og söknuður var að Alexander Petersson og Ólafi Stefánssyni. Sá síðarnefndi var reyndar ekki heldur með á EM árið áður. Nýir menn fengu að spreyta sig. Aroni var sýnd þolinmæði þetta var hans fyrsta stórmót með landsliðið.

Árið eftir var EM í Danmörku. Þrátt fyrir erfiðleika eins og meiðsli Guðjóns Vals Sigurðssonar í aðdraganda keppninnar og meiðsli þeirra Arnórs Atlasonar og Arons Pálmarssonar eftir að inn í keppnina kom náðist framúrskarandi árangur. Ísland hafnaði í fimmta sæti og átti aðeins einn slakan leik í keppninni, níu marka tap fyrir Dönum. Eftir mótið skrifaði ég á þessum vettvangi að árangurinn væri fyrst og fremst sigur Arons Kristjánssonar. Við það stend ég. Honum tókst að laða það besta fram hjá öllum leikmönnum liðsins þar sem erfiðir og jafnir leikir við Makedóníumenn og Pólverja unnust naumlega svo dæmi sé tekið.

Örlagaríkir leikir við Bosníu

Eftir mótið hallaði undan fæti. Um vorið tapaði íslenska landsliðið fyrir landsliði Bosníu í umspilsleikjum fyrir HM. Látum vera með eins marks tap í fyrri leiknum ytra. Heimaleikurinn var martröð. Eftir á að hyggja þá hefur þráðurinn milli leikmanna og þjálfarans slitnað í kringum þessa leiki. Af hverju veit ég ekki en ljóst er að síðan hefur landsliðið misst flugið. Viðvörnunarbjöllurnar tóku að hringja.

Um haustið lék íslenska liðið illa gegn Svartfellingum ytra í undankeppni EM og enn hringdu bjöllur.

Þrátt fyrir tapið fyrir Bosníu tókst íslenska landsliðinu að taka þátt í HM í Katar fyrir ári eftir að það kastaðist í kekki milli grannþjóða við Persaflóa og Alþjóðahandknattleikssambandið ákvað að nýta tækifærið og kasta dúsu til Íslendinga sem mótmælt höfðu furðulegum vinnubrögðum sambandsins þegar það handvaldi lið inn á mótið.

Á HM í Katar gekk flest á afturlöppunum innan vallar. Íslenska landsliðið lék einn góðan leik, reyndar mjög góðan, gegn Frökkum, og nokkuð bærilega á móti Egyptum. Leikirnir gegn Svíum, Tékkum og Dönum og fyrri hálfleikurinn gegn Alsír voru afleitir. Leikurinn gegn Króötum í fyrrakvöld var spegilmynd þessara viðureigna.

Vöngum velt eftir HM

Eftir HM settust menn á rökstóla hjá Handknattleikssambandinu og veltu vöngum hvað gera skyldi. Ákveðið var að Aron héldi áfram en fengi Ólaf Stefánsson með sér inn í hópinn. Í fyrstu virtist sem Ólafur hefði góð áhrif á leikmenn og með honum kæmi ákveðin virðing inn í hópinn sem e.t.v. vantaði. Undankeppni EM lauk í vor og menn voru bærilega sáttir. Fljótlega sótti þó í sama farið. Ólafur virtist ekkert hafa dramatísk áhrif til batnaðar á leik liðsins. M.a. varð þess ekki vart í leikjunum þremur á EM í Póllandi né í þeim leikjum sem liðið lék í aðdraganda EM.

Röng ákvörðun

Ég var einn þeirra sem nýttu m.a. þennan vettvang til þess að hvetja stjórnendur HSÍ til þess að halda tryggð við Aron eftir HM í fyrra. Þótt ég geri mér grein fyrir að orð mín hafi ekki vegið þungt þá skal fúslega viðurkennt ég hafði rangt fyrir mér.

Bjartsýni á yfirborðinu

Bjartsýni réði ríkjum í landsliðshópnum, eða að minnsta kosti í brjósti Arons þegar keppni hófst á EM. Eitthvað gott lá í loftinu. Nær allir leikmenn liðsins voru í toppstandi og höfðu leikið vel með félagsliðum sínum á leiktíðinni. Ekki síst þess vegna er árangursleysi á EM í Póllandi vonbrigði. Ekkert í leik andstæðinganna þriggja átti að koma leikmönnum eða þjálfarateyminu á óvart. Ekkert kom upp í leikjum sem menn höfðu ekki séð áður. Þess vegna var svo raunalegt að sjá hvernig fór.

Lausnir landsliðsþjálfarans á vandanum komust ekki til skila, leikmönnum tókst ekki að fylgja fyrirmælum. Eða var landsliðþjálfarinn ekki með réttu svörin þegar á hólminn var komið?

Aron var með hráefnið og uppskriftirnar í höndunum en lánaðist ekki að gera mat úr þeim. Steikin brann í ofninum án þess að nokkur fengið við ráðið. Það sem meira er. Kakan sem átti að hafa í eftirrétt féll og meira að segja gulrótin umtalaða verður étin af öðrum.

Sjá nánar ítarlega umfjöllun um niðurstöðuna hjá landsliðinu á EM í Póllandi í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert