Aron hættir með landsliðið

Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Ljósmynd / Foto Olimpik

Aron Kristjánsson hættir störfum sem landsliðsþjálfari karla í handknattleik en það var  tikynnt á fréttamannafundi sem hófst rétt í þessu.

Aron tilkynnti stjórn HSÍ ákvörðun sína á fundi í gær og nýtir sér ákvæði í samningi um að geta hætt fyrir 1. mars á þessu ári en samningurinn var til ársins 2017.

Aron hefur stýrt landsliðinu frá haustinu 2012 en hann tók við af Guðmundi Þórði Guðmundssyni eftir Ólympíuleikana í London. Aron stjórnaði liðinu á HM 2013, EM 2014, HM 2015 og nú síðast á EM 2016 þar sem liðið féll út eftir riðlakeppnina.

Aron stjórnaði liðinu í 61 landsleik. Ísland vann 33 þeirra, tapaði 23 og gerði fimm jafntefli.

„Þetta var tími sem ég hefði ekki viljað missa af,“ sagði Aron meðal annars á fréttamannafundinum í dag, þar sem hann þakkaði meðal annars leikmönnum, öðrum samstarfsmönnum og stjórn HSÍ fyrir samleiðina síðustu ár.

Stjórn HSÍ mun nú hefja leit að nýjum þjálfara og verður meðal annars sá möguleiki kannaður að ráða erlendan þjálfara.

Aron kvaðst sjálfur ekki farinn að huga að því hvað tæki við hjá sér. Hann kvaðst hafa fengið fyrirspurnir frá handboltafélögum síðustu misseri en ekki gefið þeim gaum enda viljað einbeita sér að landsliðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert