Ulrik Wilbek íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins segir starf Guðmundar Þórðar Guðmundssonar ekki í hættu þó svo að annað stórmótið í röð hafi danska landsliðinu ekki tekist að komast í undanúrslitin.
„Við erum vissir að hann sé rétti maðurinn í stólnum og hann heldur áfram,“ sagði Wilbek við fréttamenn í dag en Guðmundur tók einmitt við starfi hans sem landsliðsþjálfari árið 2014.
„Það er enginn sem segir að þetta séu ekki vonbrigði. Við höfum ekki náð takmarki okkar en við erum ánægðir með störf hans. Við erum ekki að lenda í 9.,11., eða 13. sæti og okkur finnst að við séum með lið sem getur staðið sig vel á Ólympíuleikunum og nú horfum við til þess að komast á þá.
Við erum líka þess vissir að leikmenn telja Guðmund vera rétta manninn. Þeir hafa mikla trú á honum,“ sagði Wilbek.