Norðmenn hafa lagt fram kæru eftir undanúrslitaleikinn sem þeir léku gegn Þjóðverjum á Evrópumótinu í handknattleik fyrr í kvöld. Þjóðverjar sigruðu, 34:33, en Norðmenn eru óánægðir með síðustu mínútu leiksins.
Norðmenn telja að Þjóðverjar hafi haft of marga leikmenn inni á vellinum í lokasókn sinni, sem þeir skoruðu sigurmarkið úr og tryggðu sér þar með sigurinn.
Þjóðverjar settu aukamann inn á í vesti, í þeim tilgangi að hafa fleiri sóknarmenn inni á vellinum á lokasekúndunum. Samkvæmt norskum fjölmiðlum fór markvörður Þjóðverja hins vegar ekki út af vellinum og voru þeir því of margir inn á.
„Nokkrir aðilar í liðsstjórn liðsins hafa séð atvikið frá nokkrum sjónarhornum og þá sjáum við að Þjóðverjar gerðu mistök með því að hafa tvo markmenn inni á vellinum á sama tíma. Við höfum því ákveðið að kæra úrslit leiksins. Núna er málið í höndum handknattleikssambands Evrópu,“ sagði Heidi Tjugum, formaður norska handknattleikssambandsins, við norska fjölmiðla.