Þýskaland og Spánn mættust í úrsltaleik EM í handknattleik karla í Kraká í Póllandi í dag. Dagur Sigurðsson stýrði þar þýska liðinu til sigurs og varð þar af leiðandi fyrsti Íslendingurinn til þess að fá gullverðlaun á stórmóti í handknattleik í karlaflokki um hálsinn.
Lokatölur í leiknum urðu 24:17 Þjóðverjum í vil, en staðan var 10:6 fyrir Þjóðverja þegar leikmenn gengu til búningsherbergjanna í hálfleik.
Þjóðverjar hófu leikinn betur og léku feykilega öflugan varnarleik og agaðan og skynsaman sóknarleik. Bakvið við sterka vörn þýska liðsins var Andreas Wolff svo í banastuði. Lítið var skorað í leiknum yfir höfuð og fjölmörg mistök litu dagsins ljós.
Staðan var 7:2 Þýskalandi í vil um miðbik fyrri hálfleiks. Þá vöknuðu Spánverjar til lífsins og minnkuðu muninni í þrjú mörk, en staðan var hins vegar 10:6 fyrir Þjóðverja í hálfleik. Aldrei hefur jafn lítið verið skorað í fyrri hálfleik í úrslitaleik á EM.
Þjóðverjar hófu seinni hálfleikinn af ámóta krafti og fyrri hálfleikinn. Þýski varnarmúrinn lét engan bilbug á sér finna og þýska liðið hleypti Spánverjum aldrei nærri sér og sigldu öruggum sjö marka sigri í land.
Þjóðverjar tryggðu sér þar með annan Evrópumeistaratitil sinn, en Þjóðverjar fóru með sigur af hólmi á EM í Slóveníu árið 2004.