Þetta var ekki bara draumur

Dagur Sigurðsson með verðlaunagripinn í fagnaðarlátunum í Kraká í gærkvöld.
Dagur Sigurðsson með verðlaunagripinn í fagnaðarlátunum í Kraká í gærkvöld. AFP

Dagur Sigurðsson náði ansi stuttum nætursvefni eftir fagnaðarhöldin í Kraká í nótt áður en hann var mættur í sjónvarpsviðtal við morgunþátt þýsku ZDF-stöðvarinnar.

Dagur var vissulega nokkuð þreytulegur enda ekki á hverjum degi sem menn geta fagnað því að hafa leitt landslið til Evrópumeistaratitils, og hvað þá lið eins og þýska landsliðið sem fyrir fram virtist ekki gera nokkurt tilkall til þess að geta kallað sig besta handboltalandslið Evrópu. Hann fagnaði með lærisveinum sínum fram eftir nóttu en þeir munu svo koma til Berlínar í dag þar sem fagnaðarlætin halda eflaust áfram.

„Ég er aðeins eldri en leikmennirnir þannig að þetta var allt í hófi en þetta var engu að síður stysta nóttin hjá mér síðustu vikurnar. Ég náði smásvefni og nú er maður vaknaður og sér að þetta var ekki bara draumur,“ sagði Dagur í þættinum Morgenmagazin.

„Við vissum að við værum með gott lið fyrir mótið en hins vegar lentum við í afar sterkum riðli. Síðan höfum við sífellt orðið sterkari og náð svona ótrúlega langt. Þetta er stórkostleg tilfinning,“ sagði Dagur sem var sérstaklega spurður út í markvörðinn Andreas Wolff, sem átti magnaðan leik í sigrinum á Spáni í úrslitaleiknum í gær og var einn af bestu mönnum mótsins, en ekki voru allir sammála því að Wolff ætti skilið sæti í þýska landsliðinu:

„Hann hefur átt gott tímabil með Wetzlar svo að fyrir mér var það ekki spurning. Hann olli ekki neinum vonbrigðum,“ sagði Dagur, sem er nú búinn að tryggja Þýskalandi sæti á HM á næsta ári og á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst. „Hópurinn er ungur og getur leikið saman í langan tíma. Núna þurfum við bara að halda áfram að leggja hart að okkur, halda hausnum niðri og sýna auðmýkt,“ sagði Dagur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert