Hægri hornamaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson var valinn maður leiksins eftir að hann skoraði fimm mörk og var markahæstur allra í 28:24-sigri Íslands á Portúgal á EM 2022 í Búdapest í Ungverjalandi í dag.
Evrópska handknattleikssambandið, EHF, veitir þessi verðlaun og tilkynnti um að Sigvaldi Björn hafi hlotið verðlaunin að þessu sinni að leiknum loknum.
Sigvaldi Björn var afar drjúgur í íslensku sókninni þar sem hann skoraði mörkin fimm úr sjö skotum. Eitt varði Gustavo Capdeville, markvörður Portúgals, og eitt fór í stöngina.