Vængbrotnir Íslendingar tókust á loft gegn Frökkum

Ísland vann magnaðan 29:21 sigur á ólympíumeisturum Frakklands þegar liðin mættust í öðrum leik sínum í milliriðli 1 á EM 2022 í handknattleik í Búdapest í Ungverjalandi í dag.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með og eftir að Frakkland hafði náð eins marks forystu í þrígang jafnaði Ísland metin og komst í fyrsta skipti yfir í leiknum, 4:3.

Eftir að Frakkar minnkuðu muninn í 6:5 tóku Íslendingar yfir leikinn, skoruðu næstu fjögur mörk og staðan orðin 10:5.

Eftir það tóku Frakkar ágætlega við sér og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk, 11:8.

Þá fór hins vegar í hönd lygilegur kafli íslenska liðsins sem sallaði inn mörkum og náði mest átta marka forystu, 17:9.

Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Frakkar skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiksins og staðan því 17:10, Íslandi í vil, í leikhléi eftir einhvern besta hálfleik sem íslenska karlalandsliðið hefur spilað í háa herrans tíð, ef ekki frá upphafi.

Viktor Gísli Hallgrímsson og Ómar Ingi Magnússon fóru á kostum í hálfleiknum. Viktor Gísli varði þá níu skot, sem var þá rétt tæplega 50 prósent markvarsla, og Ómar Ingi skoraði átta mörk.

Í síðari hálfleik hélt íslenska liðið mjög góðum dampi og hleypti Frökkum ekki nær sér en sex mörkum í honum.

Mest náði Ísland níu marka forystu í síðari hálfleiknum, 25:16.

Niðurstaðan að lokum stórkostlegur átta marka sigur, 29:21.

Ómar Ingi lauk leik með tíu mörk og Viggó Kristjánsson átti sömuleiðis stórleik og skoraði níu mörk.

Viktor Gísli varði alls 15 skot í leiknum, sem er rúmlega 44 prósent markvarsla.

Ýmir Örn Gíslason hvetur íslensku stuðningsmennina áfram.
Ýmir Örn Gíslason hvetur íslensku stuðningsmennina áfram. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Þá er ógetið íslensku varnarinnar sem var hreint út sagt mögnuð allan leikinn. Elliði Snær Viðarsson, Ýmir Örn Gíslason fyrirliði, Daníel Þór Ingason og Ómar Ingi áttu allir stórleik í vörninni, svo einhverjir séu þar nefndir.

Ísland var án átta af leikreyndustu leikmönnum sínum í leiknum eftir að þeir smituðust allir af kórónuveirunni.

Wesley Pardin lék manna best hjá Frökkum, sem sáu annars ekki til sólar, og varði átta skot, öll í síðari hálfleiknum. Var hann með 40 prósent markvörslu.

Nicolas Tournat, Hugo Descat og Aymeric Minne voru markahæstir Frakka, allir með fimm mörk.

Jafna Dani og Frakka að stigum

Ísland er nú með fjögur stig í milliriðlinum, jafnmörg og Danir og Frakkar.

Danmörk er á toppnum og á einnig leik til góða.

Ísland á eftir að spila við Króatíu og Svartfjallaland og á því prýðis möguleika á að tryggja sér sæti í undanúrslitum EM.

Það er ekki síst vegna þess að sigurinn þýðir að Ísland stendur betur að vígi í innbyrðis viðureigninni gegn Frakklandi fari svo að liðin tvö endi jöfn að stigum.

Þá batnaði markatala Íslands til muna með átta marka sigri dagsins.

Frakkland 21:29 Ísland opna loka
60. mín. Viktor Gísli Hallgrímsson (Ísland) varði skot Ver fjórtánda skot sitt! Ver frá Minne!
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert