Í dag rennur upp leikdagur hjá íslenska landsliðinu á EM karla í handknattleik, sá næstsíðasti í milliriðlinum í Búdapest. Hvað dagurinn ber í skauti sér varðandi smittölur er erfitt að segja til um en fjóra daga í röð hefur verið tilkynnt um smit í íslenska hópnum. Í gær bættist Daníel Þór Ingason við og hafa þá níu leikmenn smitast auk Jóns Birgis Guðmundssonar, annars sjúkraþjálfarans. Hefur tekist að stöðva blæðinguna?
Ísland mætir Króatíu í dag og þá mætast tvö lið sem bæði hafa lent í vandræðum vegna kórónuveirunnar. Leikmenn hjá Króötum voru farnir að smitast í aðdraganda mótsins í janúar og hafa einhverjir skilað sér til baka í hópinn.
Eftir stórbrotinn leik á móti Frökkum eru Íslendingar í mikilli baráttu um að komast í undanúrslit á mótinu og leika um verðlaun. Enn eru tvær umferðir eftir í milliriðlinum en eins og staðan er núna eru Danir efstir í milliriðli með sex stig en næst koma Frakkland og Ísland. Danmörk og Frakkland eiga eftir að mætast á miðvikudaginn í síðustu umferð í milliriðlinum og sá leikur verður afskaplega forvitnilegur.
Ísland vann Frakkland með átta marka mun. Það gæti komið liðinu til góða. Ísland tapaði fyrir Danmörku með fjögurra marka mun. Ef Frakkland vinnur Danmörku í lokaumferðinni er sá möguleiki fyrir hendi að Ísland, Danmörk og Frakkland verði með jafn mörg stig og öll með einn vinning í innbyrðisviðureignum liðanna. Þá fara úrslitin í innbyrðisleikjunum að skipta máli.
Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.