„Einn erfiðasti leikur sem ég hef spilað“

Elvar Örn skorar annað tveggja marka sinna gegn Svartfjallalandi.
Elvar Örn skorar annað tveggja marka sinna gegn Svartfjallalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Landsliðsmaðurinn Elvar Örn Jónsson sagðist hafa fundið vel fyrir eftirköstum kórónuveirunnar þegar hann var kominn á fulla ferð gegn Svartfjallalandi á EM í handknattleik í dag. 

„Það var frábært að geta loksins spilað aftur fyrir íslensku þjóðina, fá að klæða sig aftur í landsliðstreyjuna og taka þátt í þýðingarmiklum leik á EM. En þetta var á hinn bóginn einn erfiðasti leikur sem ég hef nokkurn tíma spilað. Eftir tvær mínútur fannst manni þolið vera farið. Maður var því mikið í skiptingunni til að halda út. Það tekur alveg á að fá veiruna, vera frá í viku og koma svo beint í landsleik,“ sagði Elvar Örn þegar mbl.is spjallaði við hann í Búdapest og bað hann um að útskýra stuttlega hvernig veiran hefði lagst á hann. 

Elvar Örn Jónsson í leiknum í dag.
Elvar Örn Jónsson í leiknum í dag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég veiktist eitthvað smávegis og fann fyrir þessu neðarlega í hálsinum. Ég var slappur og ekki alveg eins og ég á að mér að vera í svona daga. Ég hef verið frískur í fimm daga og hef því verið brjálaður yfir því að fá ekki að fara út. Manni leið bara vel en einhverjar tölur sögðu manni eitthvað annað. Maður hefði viljað komast miklu fyrr inn á völlinn.

Í dag var mikil áreynsla á kerfið og maður var allur að stífna og við það að fá krampa. En maður heldur bara áfram enda ætluðum við að skilja allt eftir á vellinum í dag. Við ætluðum okkur að spila að minnsta kosti um 5. sætið í mótinu. Ef Danir hjálpa okkur að spila undanúrslitaleik þá væri það bara frábært,“ sagði Elvar Örn í samtali við mbl.is.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert