Næsta víst er að Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon verður markakóngur á Evrópumótinu í handbolta með 59 mörk. Ómar, sem var kjörinn íþróttamaður ársins í lok síðasta árs, fór á kostum með íslenska liðinu sem hafnaði í sjötta sæti mótsins.
Mikkel Hansen, eini leikmaðurinn sem átti raunhæfan möguleika á að ná Ómari á lokadegi mótsins í dag, leikur ekki með Dönum gegn Frökkum í leik um bronsið vegna meiðsla. Hansen missteig sig illa í undanúrslitum gegn Spánverjum og er meiddur á ökkla.
Hansen hefur skorað 48 mörk á mótinu og er ljóst að þau verða ekki fleiri. Svíinn Hampus Wanne er með 41 mark og er óljóst með þátttöku hans í úrslitum gegn Spánverjum í dag vegna meiðsla. Verði hann með þarf Wanne að skora 19 mörk til að taka fram úr Ómari Inga.
Þá er Mathias Gidsel með 38 mörk en það verður að teljast ólíklegt að Gidsel skoraði 22 mörk í bronsleiknum í dag.
Það er því næsta víst að Selfyssingurinn verður annar íslenski markakóngurinn í sögu mótsins og sá fyrsti síðan Ólafur Stefánsson varð markakóngur á EM í Svíþjóð 2002.