Íslenska karlalandsliðið í handknattleik sá aldrei til sólar þegar liðið mætti Ungverjalandi í lokaleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München í kvöld.
Leiknum lauk með stórsigri Ungverja, 33:25, en liðið hafði tryggt sér sæti í milliriðlum áður en kom að leik kvöldsins eftir sigur Svartfjalllands gegn Serbíu í fyrri leik riðilsins fyrr um daginn.
Ísland endar í öðru sæti riðilsins með 3 stig og fer án stiga inn í milliriðilinn þar sem Frakkland, Þýskaland, Króatía og Austurríki verða mótherjar liðsins í Lanxness-höllinni í Köln.
Máté Lékai skoraði fyrsta mark leiksins eftir þriggja mínútna leik en Bjarki Már Elísson var fljótur að jafna metin með laglegu marki úr hraðaupphlaupi.
Liðin skiptust á að skora eftir þetta en Ungverjar voru þó með frumkvæðið á fyrstu mínútum leiksins.
Sigvaldi Björn Guðjónsson kom Íslandi yfir í fyrsta sinn í leiknum eftir sex mínútuna leik, 4:3, eftir hraða sókn íslenska liðsins en Bence Imre jafnaði metin í 4:4 strax í næstu sókn.
Bjarki Már Elísson kom Íslandi yfir, 5:4, með marki úr vinstra horninu en Gábor Ancsin jafnaði metin jafn harðan fyrir Ungverja í 5:5, og allt í járnum eftir fyrstu tíu mínútur leiksins.
Eftir sex mínútna leik dró til tíðinda þegar Bence Bánhidi, línumaður Ungverja, fékk að líta rauða spjaldið fyrir að fara aftan í Gísla Þorgeir Kristjánsson sem var að brjóta sér leið í gegnum vörn Ungverja. Gísli lá óvígur eftir en gat engu að síður haldið leik áfram en atvikið átti sér stað í stöðunni 6:5, Ungverjum í vil.
Þá kom hins vegar arfaslakur kafli hjá íslenska liðinu og eftir að Elvar Örn Jónsson jafnaði metin í 7:7 eftir fimmtán mínútuna leik skoruðu Ungverjar þeir Zoltán Szita tvívegis fyrir Ungverja og Egon Hanusz bætti öðru marki við fyrir Ungverjaland og staðan allt í einu orðin 10:7, Ungverjum í vil.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska liðsins, ákvá þá að taka leikhlé og Ómar Ingi Magnússon var fljótur að minnka muninn í eitt mark, 10:9, fyrst af vítalínunni og svo eftir laglega sókn íslenska liðsins.
Bjarki Már Elísson fékk gullið tækifæri til þess að jafna metin í 10:10 þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum en Kristóf Palasics varði frá honum úr sannkölluðu dauðafæri og Ísland áfram marki undir, 10:9.
Gísli Þorgeir Kristjánsson fékk einnig tækifæri til þess að jafna metin í 10:10 en skot hans, eftir að hann braut sér laglega leið í gegnum vörn Ungverja, fór í stöngina og svo aftur í stöngina.
Bendegúz Bóka kom Ungverjum svo aftur tveimur mörkum yfir, 11:9, þegar rúmlega sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en Ómar Ingi Magnússon minnkaði muninn strax í næstu sókn með frábæru skoti utan teigs.
Ungverjar skoruðu hins vegar tvívegis í röð og komust aftur þremur mörkum yfir, 13:10, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.
Ómar Ingi Magnússon fékk tækifæri til að minnka muninn í tvö mörk en vítakast hann fór í slánna og yfir og strax í næstu sókn skoraði Egon Hanusz og kom Ungverjum fjórum mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 14:10.
Viggó Kristjánsson minnkaði muninn í þrjú mörk með marki af vítalínunni og Aron Pálmarsson braut sér svo leið í gegnum vörn Ungverja og minnkaði muninn í tvö mörk, 14:12, þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrri hálfleik.
Ungverjar tóku leikhlé, sem skilaði ekki árangri, því liðið kastaði frá sér boltanum strax í næstu sókn, Viggó Kristjánsson brunaði upp í sókn og minnkaði muninn í eitt mark, 14:13.
Gábor Ancsin skoraði hins vegar síðasta mark hálfleiksins og kom Ungverjum tveimur mörkum yfir, 15:13, úr vonlausri stöðunni í horninu, og þannig var staðan í hálfleik.
Gergö Fazekas skoraði fyrsta mark síðari hálfleiks og kom Ungverjum aftur þremur mörkum yfir 16:13. Viggó Kristjánsson átti skot fyrir utan sem Palasics í marki Ungverja varði nokkuð auðveldlega og Fazekas skoraði strax í næstu sókn og kom Ungverjalandi fjórum mörkum yfir á nýjan leik, 17:13.
Aron Pálmarsson minnkaði muninn fyrir Ísland í þrjú mörk, 17:14, með fallegu skoti utan teigs og liðin skiptust svo á að skora eftir þetta en alltaf voru Ungverjar með frumkvæðið í leiknum.
Dominik Máthé kom Ungverjalandi svo fimm mörkum yfir, 20:15, þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.
Ungverjar voru áfram skrefi á undan og Miklós Rosta kom þeim sex mörkum yfir af línunni, 24:18, þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.
Þá tók Snorri Steinn Guðjónsson leikhlé en það bar lítinn árangur því íslenska liðið kastaði boltanum frá sér strax í næstu sókn.
Patrik Ligetvári kom Ungverjum svo sjö mörkum yfir, 25:18, þegar rúmlega fimmtán mínútur voru til leiksloka og útlitið orðið frekar dökkt hjá íslenska liðinu.
Ungverjar héldu áfram að auka forskot sitt og munurinn á liðunum var allt í einu orðinn níu mörk þegar tíu mínútur voru til leiksloka.
Íslenska liðinu tókst að aldrei að ógna forskoti Ungverjalands á síðustu tíu mínútum leiksins og Ungverjar fögnuðu öruggum sigri í leikslok og fara inn í milliriðlakeppnina með tvö stig.
Ómar Ingi Magnússon og Viggó Kristjánsson voru markahæstirr hjá íslenska liðinu með fimm mörk hvor. Þá varði Viktor Gísli Hallgrímsson átta skot í marki íslenska liðsins.