Enn eitt áfallið fyrir íslenska liðið

Ýmir Örn Gíslason.
Ýmir Örn Gíslason. AFP/Ina Fassbender

Ýmir Örn Gíslason leikur ekki með íslenska karlalandsliðinu í handknattleik á morgun þegar liðið mætir Austurríki í milliriðli 1 á Evrópumótinu í Lanxess-höllinni í Köln.

Varnarmaðurinn fékk að líta rauða spjaldið í sigrinum gegn Króatíu í gær og var í dag úrskurðaður í eins leiks bann af evrópska handknattleikssambandinu.

Liðið verður án Gísla Þorgeirs Kristjánssonar á morgun eftir að hann meiddist á rist gegn Króatíu og þá er óvíst með þátttöku þeirra Janusar Daða Smárasonar og Ómars Inga Magnússonar sem voru báðir veikir í gær.

Þeir Kristján Örn Kristjánsson og Óðinn Þór Ríkharðsson vöknuðu svo veikir í morgun en Teitur Örn Einarsson var kallaður inn í íslenska hópinn í morgun.

Ísland þarf á sigri að halda gegn Austurríki til þess að eiga möguleika á sæti í undankeppni Ólympíuleikanna sem var yfirlýst markmið liðsins fyrir mótið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka