Sögulegur sigur gegn Úkraínu á EM

Ísland vann Úkraínu, 27:24, í annarri umferð F-riðils EM 2024 í handknattleik kvenna í Innsbruck í Austurríki í kvöld. Er það fyrsti sigur íslenska kvennalandsliðsins á Evrópumóti í sögunni.

Ísland er í þriðja sæti riðilsins með tvö stig, jafnmörg og Þýskaland sæti ofar, og mætast liðin í hreinum úrslitaleik á þriðjudagskvöld um hvort þeirra fylgir Hollandi upp úr F-riðli og í milliriðil í Vín.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en Ísland var með yfirhöndina þar sem vörnin stóð vel og Elín Jóna Þorsteinsdóttir lokaði markinu. Staðan var orðin 3:0 eftir fimm mínútna leik og tók Borys Chyzhov, þjálfari Úkraínu, leikhlé þegar í stað.

Andrea Jacobsen skorar úr hraðaupphlaupi gegn Úkraínu í leiknum í …
Andrea Jacobsen skorar úr hraðaupphlaupi gegn Úkraínu í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

Við það lagaðist leikur úkraínska liðsins fyrst um sinn og tókst því að minnka muninn niður í eitt mark í stöðunni 4:3.

Ísland náði þá aftur yfirhöndinni, skoraði fjögur mörk í röð og var staðan þá orðin 8:3. Bætti íslenska liðið einungis í og komst mest átta mörkum yfir, 15:7, og 16:8, áður en Úkraína skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks. Staðan var því 16:9 í hálfleik.

Vörnin var afar góð hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleiknum auk þess sem Elín Jóna varði átta skot í honum og var með 53 prósenta markvörslu. Sóknarleikurinn gekk þá eins og smurð vél þar sem Elín Klara Þorkelsdóttir stýrði ferðinni með myndarbrag.

Róðurinn erfiðari í síðari hálfleik

Ísland hóf síðari hálfleikinn ekki jafn vel og ekki leið á löngu þar til Úkraína var búin að minnka muninn niður í fjögur mörk, 18:14.

Elín Klara Þorkelsdóttir í íslenskri sókn í kvöld.
Elín Klara Þorkelsdóttir í íslenskri sókn í kvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

Úkraína færði sig enn frekar upp á skaftið og minnkaði muninn niður í þrjú mörk í stöðunni 20:17. Íslenska náði tvisvar sinnum fimm marka forystu, 22:17 og 23:18, í kjölfarið en áfram klóraði Úkraína í bakkann.

Ísland hleypti Úkraínu hins vegar ekki nær en þremur mörkum í síðari hálfleiknum og vann að lokum með þremur mörkum.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst hjá Íslandi með sex mörk. Elín Jóna endaði á því að verja tíu skot.

Markahæstar í leiknum voru Valeriia Nesterenko og Tamara Smbatian með sjö mörk hvor fyrir Úkraínu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 27:24 Úkraína opna loka
60. mín. Steinunn Björnsdóttir (Ísland) skoraði mark Ísland er að vinna sinn fyrsta sigur á lokamóti EM!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert