Michael Ballack, fyrirliði þýska landsliðsins í knattspyrnu, skrifaði undir þriggja ára samning við Englandsmeistara Chelsea í gær. Ballack telur að hann og Frank Lampard geti vel spilað saman hjá Chelsea. Ballack segir að hann hafi valið að fara til Chelsea vegna þess að hann telur að Chelsea geti farið alla leið í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Michael Ballack kemur til Chelsea frá Þýskalandsmeisturum Bayern München, en þar var hann með útrunninn samning og Chelsea þarf því ekki að greiða fyrir hann. Ballack er 29 ára sókndjarfur miðjumaður. Hann sló fyrst í gegn með Bayer Leverkusen, en hefur undanfarin ár leikið með Bayern München þar sem hann hefur verið í lykilhlutverki sem og með þýska landsliðinu. „Helsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara til Chelsea var vegna þess að ég tel að Chelsea geti farið alla leið í Meistaradeild Evrópu. Það eru mörg góð lið í Evrópu en ég er viss um að Chelsea geti orðið Evrópumeistari. Chelsea var óheppið að mæta Barcelona í 16-liða úrslitum keppninnar í vetur en á næsta ári getum við farið alla leið,“ sagði Michael Ballack. „Ég og Frank Lampard erum báðir sókndjarfir miðjumenn en ég held að við getum spilað saman. Lampard hefur þurft að bera mikla ábyrgð hjá Chelsea og hann hefur skorað mjög mikið af mörkum. Ég get hjálpað honum á næsta tímabili en ég er vanur því að skora töluvert mikið af mörkum.“ Michael Ballack hefur fjórum sinnum unnið þýsku deildina og hann hefur þrisvar sinnum orðið þýskur bikarmeistari. Ballack hefur skorað 30 mörk í 63 landsleikjum. Sjá einnig enski.is