Eggert Magnússon, formaður Knattspyrnusambands Íslands, er í forsvari fyrir fjárfesta sem eru að skoða það að gera tilboð í enska knattspyrnuliðið West Ham. Þetta staðfesti Eggert í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.
"Málið er á byrjunarreit," sagði Eggert, "en West Ham er sögufrægur alvöruklúbbur, með flottan framkvæmdastjóra, frábæra knattspyrnumenn, flotta umgjörð og frábæran stuðningsmannahóp. Þetta er einfaldlega bara spennandi fyrir svona kalla eins og mig, sem elska fótbolta."
Eggert vildi ekki segja hvort með honum væru íslenskir eða útlendir fjárfestar.
West Ham er metið á jafnvirði 10 milljarða króna.
Sjá nánar á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.