Pardew rekinn frá West Ham

Alan Pardew er á leið frá West Ham.
Alan Pardew er á leið frá West Ham. Reuters

Alan Pardew hefur verið rekinn úr starfi sem knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins West Ham eftir því sem fram kemur í netútgáfu Daily Mail og hefur nú verið staðfest af forráðamönnum West Ham. Kevin Keen einn af þjálfurum West Ham mun stýra liðinu þar til nýr knattspyrnustjóri verður ráðinn. West Ham er sem kunnugt í eigu Íslendinga en íslenskir fjárfestar með Eggert Magnússon í broddi fylkingar keyptu meirihlutann í Lundúnarliðinu fyrir nokkrum vikum.

West Ham hefur gengið afar illa upp á síðkastið og 4:0 tap gegn Bolton á laugardaginn var kornið sem fyllti mælinn hjá Eggerti Magnússyni og félögum hans í stjórninni. Þetta var þriðji tapaleikur liðsins í röð og sá fimmti í síðustu sex leikjum og er West Ham í 18. sæti og þar að leiðandi í fallsæti.

Í yfirlýsingu frá West Ham segir meðal annars: ,,Alan hefur gert afar góða hluti með liðið frá því hann tók við því í september 2003. Á þessari leiktíð hefur gengi liðsins hins vegar valdið vonbrigðum. Stjórnarformaðurinn Eggert Magnússon og stjórnin telja það réttan tímapunkt að gera breytingar og telja það félaginu fyrir bestu."

Pardew tók við knattspyrnustjórastarfinu hjá West Ham í október. Hann stýrði liðinu upp í úrvalsdeildina 2005 og á síðustu leiktíð varð West Ham í níunda sæti úrvalsdeildarinnar og komst í úrslit í bikarkeppninni þar sem það tapaði fyrir Liverppol.

Sven Göran Eriksson fyrrum landsliðsþjálfari Englendinga og Alan Curbishley fyrrum knattspyrnustjóri Charlton hafa verið orðaðir við stjórastöðuna á Upton Park í stað Pardews.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert