Umboðsmaður portúgalska knattspyrnumannsins Cristiano Ronaldo segir að Evrópumeistarar Barcelona hafi hafnað tækifæri til að fá leikmanninn í sínar raðir snemma á síðasta ári. Þeir hafi ætlað sér að fá Thierry Henry frá Arsenal og því ekki litið við Ronaldo, sem hefur farið á kostum með Manchester United í vetur.
Umboðsmaðurinn, Jorge Mendes, sagði þetta við spænska dagblaðið El Mundo Deportivo í dag. Henry ákvað sem kunnugt er að vera áfram í röðum Arsenal. „Það er útilokað að Barcelona fengi hann núna því Manchester United myndi aldrei selja hann, hvað sem í boði væri," sagði Mendes.
Ronaldo var síðan sterklega orðaður við brottför frá United eftir heimsmeistarakeppnina þar sem framkoma hans í leik Portúgals gegn Englandi féll ekki í góðan jarðveg hjá enskum knattspyrnuáhugamönnum. Ronaldo hefur hinsvegar leikið frábærlega í vetur og er annar markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar með 12 mörk. „Cristiano er ánægður í úrvalsdeildinni og mun ekki fara fram á að yfirgefa félagið," sgaði Mendes.