Eggert biður stuðningsmenn West Ham afsökunar

Alan Curbishley, knattspyrnustjóri West Ham, og Eggert Magnússon.
Alan Curbishley, knattspyrnustjóri West Ham, og Eggert Magnússon. Reuters

Eggert Magnússon, stjórnarformaður enska knattspyrnuliðsins West Ham, biður stuðningsmenn afsökunar á að liðið hafi tapað 6:0 fyrir Reading á nýársdag. Fram kemur í Daily Telegraph í dag, að Eggert býður stuðningsmönnunum ókeypis rútuferð til Birmingham til að fylgjast þar með leik West Ham og Aston Villa 3. febrúar.

Stuðningsmenn West Ham voru æfir eftir leikinn við Reading og margir kröfðust þess að fá aðgöngumiða sína endurgreidda en 2200 áhangendur West Ham fóru til Madejski Stadium til að fylgjast með leiknum. Eggert segir í viðtalinu að hann skilji vel þessa óánægju því frammistaða liðsins hafi verið óviðunandi.

„Ég get ekki gert annað en beðist afsökunar fyrir hönd liðsins," segir Eggert og bætir við að allir stuðningsmenn liðsins séu í uppnámi yfir úrslitunum í Reading, ekki aðeins þeir sem fylgdust þar með leiknum.

Næsti útileikur West Ham er í Newcastle 20. janúar en Eggert segir, að fleiri muni þiggja boðið um ókeypis rútuferð til Birmingham þar sem West Ham mætir Aston Villa á Villa Park 3. febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert