Brasilímaðurinn Julio Baptista skoraði fjögur mörk fyrir Arsenal í kvöld þegar liðið vann ótrúlegan útisigur á Liverpool, 6:3, í átta liða úrslitum ensku deildabikarkeppninnar í knattspyrnu. Arsenal er þar með komið í undanúrslitin og mætir þar nágrönnum sínum í Tottenham. Baptista hefði getað skorað fleiri mörk því Jerzy Dudek, markvörður Liverpool, varði frá honum vítaspyrnu í leiknum.
Bæði lið hvíldu marga af fastamönnum sínum í kvöld, sérstaklega þó Arsenal sem tefldi fram hálfgerðu unglingaliði.
Jeremie Aliadiere kom Arsenal yfir á 27. mínútu en Robbie Fowler jafnaði fyrir Liverpool sex mínútum síðar. Á lokamínútum fyrri hálfleiks skoraði Arsenal þrívegis og staðan var skyndilega orðin 1:4. Julio Baptista skoraði annað og fjórða markið og Alexandre Song það þriðja.
Baptista gat náð þrennunni á 56. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á Liverpool en Dudek varði skot hans. Baptista svaraði fyrir sig fjórum mínútum síðar þegar hann skoraði sitt þriðja mark og staðan var orðin 5:1.
Steven Gerrard svaraði fyrir Liverpool með miklum þrumufleyg, 2:5, á 68. mínútu og Sami Hyypiä skallaði boltann í mark Arsenal á 80. mínútu, 3:5. Spennan í leiknum entist þó aðeins í fjórar mínútur því á 84. mínútu skoraði Baptista sitt fjórða mark og innsiglaði magnaðan sigur Arsenal.