Beckham á leið til Bandaríkjanna

David Beckham.
David Beckham. Reuters

Líkur er taldar á að David Beckham, fyrrum fyrirliði enska landsliðsins, gangi til liðs við félag í bandarísku atvinnumannadeildinni, MLS. Fregnir frá Bandaríkjunum herma að Los Angeles Galaxy vilji fá Beckham og fullyrða spænskir fjölmiðlar að hann hafi þegar gert samkomulag við félagið um að gera fimm ára samning.

Eins og fram hefur komið er framtíð Beckhams hjá Real Madrid óljós. Samningur hans við félagið rennur út í sumar og liggur ekki en ljóst fyrir hvort Madridarliðið ætli að bjóða honum nýjan samning eða ekki en misvísandi fréttir hafa komið um málið úr herbúðum Real Madrid.

,,Ég hef spilað fyrir tvö af stærstu félögum í heimi en nú held ég að þurfi að fá nýja áskorun," sagði Beckham í viðtali við bandaríska fjölmiðla í dag.

Real Madrid keypti Beckham frá Manchester United fyrir 25 milljónir punda í júlí. Honum hefur ekki tekist að vinna neina titla með Madridarliðinu og á yfirstandandi tímabili hefur hann átt undir högg að sækja hjá Fabio Capello þjálfara liðsins. Beckham hefur vermt varamannabekkinn meira og minna allt tímabilið og var ekki valinn í leikmannahóp liðsins fyrir leikinn gegn Real Betis í spænsku bikarkeppninni sem fram fer í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert