Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea sagði við fréttamenn í dag að hann yrði ánægður að vera um kyrrt í herbúðum félagsins út samningstíma sinn svo framarlega sem hann fái stuðning frá stjórnarmönnum liðsins og þeir sýni honum virðingu.
Mikið hefur verið rætt og ritað um hugsanlegan viðskilnað Mourinho við Chelsea eftir tímabilið. Sjálfur á Mourinho að hafa sagt sínum besta vini að hann ætlaði að hætta hjá félaginu í sumar og þá hafa enskir fjölmiðlar greint frá ágreiningi á milli Mourinho við Roman Abramovich, eiganda Chelsea og framkvæmdastjórann Peter Kenyon.
,,Það er mjög mikilvægt fyrir knattspyrnustjóra að vita hvort félagið vilji hafa hann, líki við hann og sýni og honum stuðning. Ef sá stuðningur er fyrir hendi og að borin sé virðing fyrir mínum störfum þá myndi ég glaður vilja vera hjá félaginu út samningstímann," sagði Mourinho, sem er samningsbundinn Chelsea til 2010.