Heiðar Helguson var valinn maður leiksins á Sky en Dalvíkingurinn, sem fékk 9 í einkunn, skoraði fyrra mark Fulham í 2:1 sigri á Newcastle á Craven Cottage. Þetta var fyrsti sigur Fulham á leiktíðinni en fyrir leikinn hafði liðið gert sex jafntefli og tapað einum leik. Heiðar kom sínum mönnum í 1:0 á 49. mínútu en hann komst inn í sendingu Nicky Butts aftur á markvörðinn og skoraði með fallegu bogaskoti. Þetta var þriðja mark Heiðars á leiktíðinni. Brian McBride kom Fulham í 2:0 en Obafemi Martins minnkaði muninn fyrir Newcastle á lokamínútunni.
Heiðar var mjög líflegur í sókn Fulham og var Titus Bramble stálheppinn að vera ekki rekinn út af þegar hann felldi Heiðar sem var að sleppa einn í gegn.
,,Mínir menn börðust hart og í síðari hálfleik sýndum við að sigurinn var fyllilega verðskuldaður. Ég óskaði eftir góðum viðbrögðum eftir lélega frammistöðu á móti Sheffield United og ég fékk það sem ég óskaði eftir," sagði Chris Coleman, stjóri Fulham.