Freddie Ljungberg, sænski knattspyrnumaðurinn hjá Arsenal, vísar á bug fregnum um að hann sé á förum frá enska félaginu. Talsvert var rætt um mögulegt brotthvarf hans þaðan í janúar og sagt að Arsene Wenger knattspyrnustjóri væri tilbúinn til að láta hann fara.
„Í gegnum tíðina hef ég verið orðaður við félög eins og Real Madrid og AC Milan en ég hef alltaf sagt að það skipti mig mestu máli að vera í sigursælu liði. Mitt takmark er að sigra, og það höfum við gert mikið af hjá Arsenal og ég sé enga ástæðu til að fara þaðan. Hjá Arsenal eru mjög sérstök tengsl, mér líkar lífið þar og þess vegna hef ég spilað svona lengi með félaginu," sagði Ljungberg.
Hann verður þrítugur í vor og hefur leikið með Arsenal frá haustinu 1998 en félagið keypti hann þá frá Halmstad fyrir þrjár milljónir punda.